Í átjánda þætti Heimskviðna er fjallað um stórsigur Íhaldsflokksins í bresku þingkosningunum á fimmtudag. Boris Johnson tókst ætlunarverk sitt, en hvort hann komi Brexit í gegnum breska þingið, er áfram óleyst ráðgáta. Hann hefur allavega sterkara vopnabúr en áður.
Hallgrímur Indriðason um þau mótmæli og verkföll sem hafa staðið yfir í Frakklandi undanfarna viku, og þau áhrif sem þau hafa haft á franskt atvinnu- og þjóðlíf. Frakkar eru mun duglegri að mótmæla en flestar aðrar Evrópuþjóðir og það má rekja til ýmiss konar sérstöðu í franska kerfinu. Við skoðum hana nánar, og rýnum jafnframt í áhrif núverandi mótmæla og ástæðuna fyrir þeim, sem og fyrirhugaðar breytingar á eftirlaunakerfi Frakka.
Þá er einnig fjallað um frelsishetjuna og friðarverðlaunahafann Aung San Suu Kyi, valdamestu konu Mjanmar. Hún mætti fyrir Alþjóðadómstóllinn í Haag í vikunni. Stjórnvöld þar í landi eru ásökuð um þjóðarmorð og þjóðernishreinsari á Róhingjum í Rakhine héraði í vesturhluta Mjanmar. Fjallað er um Suu Kyi, baráttu hennar fyrir mannréttindum í Mjanmar, hvernig hún komst til valda, og hvernig hún virðist nú bera ábyrgð á dauða þúsunda saklausra borgara. Guðmundur Björn ræðir við Ingólf Bjarna Sigfússon, fréttamann, sem fór til Rakhine héraðs á síðasta ári.
Heimskviður er fréttaskýringaþáttur sem fjallar á ítarlegan og lifandi hátt um heimsmálin, um allt það sem ekki gerist á Íslandi. Ritstjórar þáttarins eru Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Birta Björnsdóttir.