Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson ræddu stjórnmálaástandið á Írlandi. Stjórnarmyndunarviðræður hófust formlega á Írlandi í gær þegar Sinn Féin ræddu við fulltrúa Græningja og flokks sem nefnir sig People before Profit, Fólk í fyrirrúmi. Mary Lou McDonald, leiðtogi Sinn Féin, segir það fyrsta valkost að mynda ríkisstjórn án Fianna Fáil og Fine Gael. Þeir flokkar hafa borið höfuð og herðar yfir aðra í írskum stjórnmálum frá því landið fékk sjálfstæði fyrir tæpri öld. McDonald segir úrslit kosninganna sýna að almenningur hafi hafnað þessum tveimur flokkum. Sinn Féin er næst stærsti flokkurinn á þingi en sá sem er klárlega sigurvegari í þingkosningunum. Flokkurinn var lengst af stjórnmálaarmur Írska lýðveldishersins, IRA, en hefur á síðustu árum slitið á þau tengsl.
Evrópuþingið í Strassborg hefur samþykkt samningsmarkmið í viðræðum við Breta um framtíðarviðskiptasamning. Þær viðræður hefjast formlega í mars. Þingið herti nokkuð skilyrðin sem ESB setur fyrir samningi frá því sem Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB, lýsti í yfirlýsingu fyrir nokkrum dögum. Búist er við að erfiðustu málin verði krafa ESB um að Bretar fari að leikreglum sambandsins varðandi skattamál og ríkisstyrki og svo fiskveiðimál. Bretar hafa lýst yfir að þeir ætli einir að veiða í lögsögu sinni. ESB hefur á móti sagt að án fiskveiðiheimilda í breskri lögsögu geti Bretar ekki flutt út sjávarafurðir tollfrjálst til bandalagsríkja.
Bernie Sanders vann sigur í forkosningum Demókrata í New Hampshire fyrr í vikunni, en sigur hans yfir Pete Buttigieg, var naumur. Öldungadeildarþingmaðurinn Amy Klobuchar var óvænt í þriðja sæti. Úrslitin voru vonbrigði fyrir Elizabeth Warren og Joe Biden sem eiga nú á brattann að sækja. Óvíst er hins vegar hvernig Sanders og Buttigieg á eftir að ganga í næstu forkosningum í Nevada og Suður-Karólínu. Þar búa margir af rómönskum uppruna annars vegar og blökkufólk hins vegar og hvorugur nýtur mikils stuðnings meðal þeirra. Úrslitin eru því hvergi nærri ráðin í baráttunni um að verða frambjóðandi Demókrata í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember.