Stjórnmál á Bretlandseyjum eru lífleg þessa dagana, kosningar verða eftir viku og þar beinist athyglin helst að Skotlandi. Hugsanlegt er að Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, fái hreinan meirihluta á skoska þinginu. Á Norður-Írlandi hefur Arlene Foster sagt af sér sem fyrsti ráðherra og leiðtogi DUP, Lýðræðislega sambandsflokksins. DUP er stærsti flokkur mótmælenda og að mörgu leyti afar íhaldssamur í félagsmálum, á móti hjónaböndum samkynhneigða og réttindum trans fólks og algjörlega andvígur þungunarrofi. Margir stuðningsmenn flokksins eru afar reiðir vegna þess að þeir töldu Foster ekki hafa staðið gegn lögum á þessum sviðum sem breska þingið samþykkti meðan þing Norður-Írlands sat ekki. Mest er óánægjan með Brexit-samningana, þar sem Norður-Írland er de facto enn hluti af innri markaði Evrópusambandsins, öfugt við aðra hluta Stóra-Bretlands. Líta margir svo á að Boris Johnson, forsætisráðaherra Breta, hafi svikið loforð um að Norður-Írland yrði áfram órjúfanlegur hluti Stóra-Bretlands.
Sjálfur er Boris Johnson í verulegum vandræðum vegna efasemda um hver borgaði fyrir endurnýjun íbúðar Johnsons í Downing-stræti og vegna meintra ummæla í haust um að honum væri sama þó líkin hrönnuðust upp, hann myndi ekki loka Bretlandi aftur. Þetta var meginumræðuefni Þórunnar Elísabetar og Boga Ágústssonar í Heimsglugga vikunnar.