Heimsgluggi vikunnar fjallaði um Úkraínudeiluna, möguleika Emmanuels Macrons á endurkjöri, samdrátt í utanríkisviðskiptum Breta eftir Brexit og Boris Johnson.
Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir ræddu við Boga Ágústsson um erlend málefni í Heimsglugganum eins og jafnan á fimmtudagsmorgnum. Staðan í deilu Rússa og vestrænna ríkja vegna Úkraínu var til umræðu. Mikið hefur verið um fundi til að reyna að finna friðsamlega lausn og meðal þeirra sem hafa gert sig gildandi í þeim tilraunum er Emmanuel Macron Frakklandsforseti. Honum þykir ekki síðra að vera á forsíðum en forsetakosningar verða í Frakklandi í apríl. Samkvæmt kosningahermi breska tímaritsins The Economist á Macron góða möguleika á endurkjöri.
Bresk þingmannanefnd segir í skýrslu að samdráttur hafi orðið á viðskiptum við ríki Evrópusambandsins eftir útgöngu Breta úr sambandinu. Þjóðhagsstofnun Breta, Office of Budget Responsibility, telur að útgangan leiði til fjögurra prósenta samdráttar í þjóðarframleiðslu Breta. Á breska þinginu er enn hart vegið að Boris Johnson forsætisráðherra. Fjöldi starfsmanna í forsætisráðuneytinu hefur sagt upp störfum að undanförnu og Johnson mun hafa tekið á móti nýjum samskiptastjóra með því að syngja brot úr lagi Gloriu Gaynor I will survive, Ég lifi þetta af.