Lögþingskosningar verða í Færeyjum laugardaginn 31. ágúst . Kannanir benda til þess að ríkisstjórn Jafnaðarflokksins, Þjóðveldis og Framsóknar
missi meirihluta á þingi. Fólkaflokknum og Sambandsflokknum er spáð fylgisaukningu. Líkur eru á að fjóra flokka þurfi til að ná meirihluta á þingi. Helstu mál kosningabaráttunnar hafa verið heilbrigðis- og velferðarmál, umdeild ný fiskveiðilöggjöf og húsnæðismál. Uppgangur er í færeysku efnahagslífi, verðbólga lítil og atvinnuleysi aðeins 1,2 prósent og skortur á vinnuafli. Færeysk stjórnmál snúast ekki bara um hægri og vinstri, heldur skiptir afstaðan til sambandsins við Dani miklu máli þó að sjálfstæðismál hafi lítt verið til umræðu í kosningabaráttunni að þessu sinni. Þá hafa trúarviðhorf og lífsskoðanir meira vægi í færeyskum stjórnmálum en á Íslandi. Þannig nefndu rúmlega 30 prósent kjósenda í könnun í apríl að miklu skipti að varðveita Færeyjar sem kristið land.