Björn Þór Sigbjörnsson, Þórunn Elísabet Bogadóttir og Bogi Ágústsson ræddu valdaránið í Mjanmar, landinu sem eitt sinn hét Búrma. Einnig var rætt um Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra útlendinga og innflytjenda í Danmörku. Þingið hefur ákært hana fyrir brot í starfi og hún þarf að svara til saka fyrir Rigsret eða Landsdómi í Danmörku. Eftir spjallið bárust fréttir af því að Støjberg hefði yfirgefið flokk sinn, Venstre.
Í lokin var til umfjöllunar dagur múrmeldýrsins, Groundhog Day. Sá siður að hleypa múrmeldýri í veðurspá hefur gert smábæinn Punxsutawney í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum frægan um hinn vestræna heim. Groundhog Day er nánast orðið orðatiltæki í ensku um eitthvað sem endurtekur sig aftur og aftur og aftur. Þetta er auðvitað tilvísun í kvikmyndina Groundhog Day þar sem leikarinn Bill Murray er í hlutverki veðurfréttamannsins Phil Connors sem vaknar dag eftir dag eftir dag á hótelherbergi við sama lagið, I got you babe með Sonny og Cher.