Björn Þór Sigbjörnsson og Gígja Hólmgeirsdóttir ræddu við Boga Ágústsson um aukna bjartsýni um lausn á deilu um framkvæmd Brexit-samningsins á Norður-Írlandi og við heyrðum í Michelle O'Neill, leiðtoga Sinn Fein, sem er stærsti flokkur lýðveldissinna. Sinn Fein vann kosningasigur í fyrra og ætti O'Neill að vera fyrsti ráðherra en sambandssinnar í DUP-flokknum neita að taka þátt í stjórn Norður-Írlands vegna óánægju með Brexit-samninginn.
Þá ræddu þau um rannsóknir tveggja skoskra sagnfræðinga sem draga mjög í efa þá kenningu sem lengst af hefur verið ríkjandi að rottur hafi breitt út svarta dauða í Evrópu á 14. öld. Það hefur verið algeng skoðun að flær á rottum hafi borið pestina, en skosku sagnfræðingarnir eru ekki þeirrar skoðunar. Svarti dauði gekk á Íslandi hálfri öld síðar og talið er að allt að helmingur þjóðarinnar hafi látist í þeim faraldri. Margt bendir til þess að engar rottur hafi verið á Íslandi og þær því ekki getað breitt farsóttina út hér á landi.