Glundroði, óstjórn og óreiða eru orð sem eru mikið notuð í Bretlandi um ríkisstjórn Liz Truss. Hvert áfallið af öðru hefur dunið yfir og svo er komið að fæstir búast við því að Truss sitji mikið lengur í stóli forsætisráðherra. Hún geti þakkað áframhaldandi setu að Íhaldsflokkurinn getur ekki komið sér saman um eftirmann og að flokkurinn vilji forðast kosningar því kannanir benda til þess að flokkurinn yrði fyrir þungu áfalli. Þetta var umræðuefni Heimsgluggans þegar Þórunn Elísabet Bogadóttir og Björn Þór Sigbjörnsson ræddu við Boga Ágústsson.