Björn Þór Sigbjörnsson og Guðrún Hálfdánardóttir ræddu í Heimsglugganum við Boga Ágústsson um Matilde Kimer, fréttamann Danmarks Radio, sem rússnesk yfirvöld hafa rekið úr landi. Þau ræddu einnig stöðuna í stríðinu í Úkraínu.
Svo virðist sem Úkraínumönnum hafi tekist að stöðva sókn Rússa með HIMARS-flugskeytum sem þeir hafa fengið frá Bandaríkjunum. Hernaðaraðferðir Rússa hafa hingað til verið að skjóta með fallbyssum og flugskeytum og leggja nánast allt í rúst áður en þeir senda hermenn til að leggja rústirnar undir sig. Nú hafa Úkraínumenn hins vegar fengið þessi langdrægu og nákvæmu flugskeyti frá Bandaríkjamönnum og geta svarað stórskotaliði Rússa og eyðilagt fallbyssur og skotpalla þeirra. Rússar hafa því að mestu leyti hætt stórskotaárásum nema frá einum stað af því að þeir vita að Úkraínumenn svara þeim árásum ekki. Það er Zaporizhzhia-kjarnorkuverið, hið stærsta í Evrópu. Úkraínumenn þora ekki að svara þeim árásum af ótta við valda kjarnorkuslysi.
Þá var stuttlega rætt um stöðuna í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins áður en rifjuð var upp tölfræði Hans Roslings sem benti á að þrátt fyrir öll vandamál hefðu orðið miklar framfarir í heiminum undanfarna áratugi. Af því tilefni lauk Heimsglugganum með lagi Louis Armstrongs What a Wonderful World.