Magdalena Anderson, forsætisráðherra Svíþjóðar, baðst lausnar í morgun. Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, fól henni að sitja áfram uns ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Ulf Kristersson, leiðtogi hægri flokksins Moderaterna, fær tækifæri til að mynda stjórn sem nýtur stuðnings meirihluta sænska þingsins. Fjallað var um sænsk stjórnmál í Heimsglugganum á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Einnig var rætt um stöðuna í Úkraínu þar sem her landsins hefur stökkt Rússum á flótta á stórum svæðum í Kharkiv-héraði í norðausturhluta landsins.