Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson hófu Heimsgluggann á umræðum um morðið á Olof Palme. Mörgum Svíum þykja niðurstöður sérstaks saksóknara, sem greint var frá í gær, heldur þunnur þrettándi og ekkert nýtt hafi þar komið fram. Saksóknarinn, Krister Petersson, telur fullvíst að morðinn hafi verið svokallaður Skandia-maður, Stig Engström. Margir draga þá niðurstöðu í efa. Flestir vonuðu að ráðgátan um morðið á Palme yrði úr sögunni með rannsókn Peterssons en viðbrögð benda til þess að svo verði ekki.
En Heimsglugginn að þessu sinni fjallaði að mestu um stjórnmál á Grænlandi. Rætt er við Ingu Dóru Guðmundsdóttur Markussen, nýkjörinn formann jafnaðarmannaflokksins Siumut í höfuðstaðnum Nuuk. Inga Dóra á grænlenska móður og íslenskan föður, þau Benedikte Abelsdóttur og Guðmund Þorsteinsson. Inga Dóra var til skamms tíma framkvæmdastjóri Vestnorræna ráðsins og bjó þá á Íslandi. Síðastliðin tvö ár hefur hún búið í Nuuk og starfað fyrir Royal Greenland, langstærsta sjávarútvegsfyrirtæki Grænlands.