Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams-háskóla í Bandaríkjunum, var gestur Morgunvaktarinnar í stað hefðbundins Heimsglugga á fimmtudegi. Magnús er svartsýnn á breytingar í Íran. Víðtæk mótmæli hafa verið í landinu frá því um miðjan september í fyrra. Kveikja þeirra var dauði ungrar konu, Mahsa Amini, í haldi siðgæðislögreglu landsins. Hún var handtekin fyrir meint brot á reglum um höfuðslæðu; fyrir að hafa ekki hulið hár sitt nægilega vel. Talið er að Amini hafi verið barin til bana í haldi lögreglunnar.
Magnús segir engin merki um að klerkastjórnin ætli að slaka á harðstjórn sinni, þvert á móti færist harðneskjan í vöxt og mótmælendur hafi verið teknir af lífi opinberlega. Litlar vonir séu um breytingar.