Við þurfum ekki að ræða fjármálin. Fjármálin eru í fínu lagi, sagði Nicola Sturgeon þáverandi fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins á fundi flokksstjórnar í ágúst 2021. En það þurfti svo sannarlega að ræða fjármálin! Mörg hundruð þúsund pund, meira en hundrað milljón krónur vantaði í peningakassann, peninga sem safnað hafði verið til stuðnings sjálfstæðisbaráttu Skota, eins helsta stefnumáls flokksins, sem þarna virtust hafa gufað upp. Sturgeon var handtekin um helgina vegna rannsóknar lögreglu á fjármálum flokksins en sleppt að lokinni yfirheyrslu. Þetta leiðindamál hefur sett mark sitt á fyrstu mánuði arftaka Sturgeon í starfi, Humza Yousaf, sem reynir hvað hann getur að beina athyglinni að stefnumálum flokksins á meðan fyrirsagnirnar fjalla bara um fjármálin, handtökur og horfna peninga.
Snorri Rafn Hallsson fer yfir atburðarásina í þætti dagsins.