Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur kært Donald Trump forseta til embættismissis. Mál hans fer nú fyrir Öldungadeildina sem dæmir í kærumálinu, fréttaskýrendur telja afar ólíklegt að deildin svipti forsetann embætti.
Bandaríska tónskáldið Leroy Anderson samdi mörg vinsæl lög. Meðal allra vinsælustu tónsmíða hans er Sleigh Ride, Sleðaferðin sem orðið hefur að jólalagi þó að hvergi sé minnst á jólin í textanum. Foreldrar Andersons voru sænskir innflytjendur og sænska var töluð á heimilinu og Leroy talaði því sænsku. Anderson nam við Harvard háskóla og vann þar að doktorsritgerð um þýsku og norræn tungumál. Þegar síðari heimsstyrjöldin hófst var hann kvaddur í herinn. Anderson var gerður að liðsforingja í gagn-njósnadeild hersins og sendur til Íslands. Vegna þekkingar hans á norrænum tungumálum fékk hann það hlutverk að lesa yfir fréttir Ríkisútvarpsins til að öruggt væri að ekki yrði sagt frá neinu sem gagnaðist Þjóðverjum. Jón Múli Árnason, síðar einn allra ástælasti útvarpsmaður þjóðarinnar, var fenginn til að kenna Anderson íslensku og tókst með þeim góð vinátta.