Danir hafa hætt notkun AstraZeneca-bóluefnisins við kórónuveirunni vegna blóðtappa sem er sjaldgæf aukaverkun. Bandaríkjamenn hafa tímabundið hætt notkun Johnson & Johnson-bóluefnisins af sömu ástæðu. Bóluefnin byggjast á sömu veiruferjutækni og bæði hafa þau valdið lífshættulegum blóðtöppum, einkum hjá konum. Forstjóri Evrópsku lyfjastofnunarinnar segir að kostirnir við bóluefni AstraZeneca séu meiri en hættan á aukaverkunum. Anthony Fauci, sóttvarnalæknir í Bandaríkjunum, segir að sex tilfelli hafi fundist í nærri sjö milljónum sem hafi verið bólusett með Johnson & Johnson-bóluefninu. Þessar ráðstafanir hafa valdið því að áætlanir um bólusetningar eru í uppnámi.
Aðalumfjöllunarefni Heimsgluggans var Afganistan, en Bandaríkjastjórn hefur tilkynnt brottför bandarískra hermanna frá landinu fyrir 11. september. Þá verða liðin 20 ár frá hryðjuverkum al-Qaeda í Bandríkjunum sem voru tilefni innrásar Bandaríkjamanna í Afganistan. Með brottflutningnum lýkur lengsta stríði í sögu Bandaríkjanna þar sem hátt á þriðja þúsund hefur fallið. Bandamenn Bandaríkjanna ætla einnig að kalla hermenn sína á brott. Margir óttast að Talibanar nái aftur völdum í landinu en þeir fylgja harðlínutúlkun á islam.