Steinunn Þóra Árnadóttir fráfarandi formaður Vestnorræna ráðsins var gestur Heimsgluggans á Morgunvakt Rásar-1. Hún lýsti starfi ráðsins og áhuga á að efla samvinnu Færeyja, Grænlands og Íslands.
Þá ræddi Bogi Ágústsson undir lokin um valdarán í Afríku sem hafa verið mörg að undanförnu. Síðast tók herinn í Gabon völdin og steypti Ali Bongo forseta af stóli. Bongo ættin hefur farið með völd í Gabon frá því 1967 og safnað miklum auðævum. Miklar olíulindir er að finna undan ströndum Gabons en tekjum af olíuvinnslu er mjög misskipt. Þá var einnig rætt um nýlegar kosningar í Simbabve sem erlendum eftirlitsmönnum ber saman um að hafi ekki verið heiðarlegar. Emmerson Mnangagwa var endurkjörinn forseti, hann varð forseti 2017 eftir valdarán.