Guðjón R. Sigurðsson fæddist árið 1903 í Austur Skaftafellssýslu, en fluttist vestur um haf rúmlega tvítugur að aldri. Guðjón festi aldrei rætur heldur ferðast vítt og breitt um landið og stundaði fjölbreytt farandstörf. Þegar litla vinnu var að fá hafðist Guðjón við í óbyggðum Kanada og veiddi í sig og á. Hann kynntist ótal eftirminnilegum einstaklingum og lenti oft í lífsháska. En römm er taugin heim, og eftir ævintýralegt lífshlaup í Kanada ákvað Guðjón að flytja aftur til Íslands, og stuttu síðar hóf hann að skrifa endurminningar sínar. Þórður Sævar Jónsson tók þær saman og við heyrum í honum í þætti dagsins.
Í kvöld fara fram í Hörpu tónleikar í tónleikaröð undir yfirskriftinni Feima. Nafnið Feima er samheiti orðsins kona og tilvísun í stefnu kammerklúbbsins að rétta af hlutföll kynja sem oft sjást á efnisskrám og annars staðar í tónlistarlífinu. Feima sprettur upp úr starfi kammersveitarinnar Elju og á tónleikum FEIMU slást ýmsar tónlistarkonur í hóp með klassískum hljóðfæraleikurum Elju. Á tónleikunum í kvöld leikur tónlistarkonan RAKEL eigin tónlist í útsetningum fyrir kammerhóp, ásamt því að fulltrúar úr Elju flytja verk eftir Veronique Vöku, Fanny Mendelssohn og Kaju Saariaho. Þær Rakel Sigurðardóttir og Björg Brjánsdóttir verða gestir í hljóðstofu hér á eftir og segja okkur nánar af starfi Feimu og tónleikum kvöldsins.
Játningarnar eru eitt af lykilverkum heimsbókmenntanna, hreinskilin og opinská sjálfsævisaga eins helsta hugsuðar átjándu aldar, Jeans-Jacques Rousseau.
Í tólf bókum rekur Rousseau ítarlega ævintýralegan feril sinn og opinberar bresti sína og tilfinningar. Pétur Gunnarsson rithöfundur hefur nú þýtt þetta gríðarmikla verk úr frönsku og Gauti Kristmannsson hefur nýlokið lestri. Heyrum meira af því í þætti dagsins.
En við byrjum á því að forvitnast um íslenska myndlistarkonu í Þýskalandi. Nýlega var tilkynnt um handhafa Albert-Weisgerber heiðursverðlaunanna, sem veitt eru fyrir ævistarf myndlistarmanns sem skapað hefur sér sérstöðu, virðingu og unnið ötullega að list sinni heima og að heiman. Myndlistarkonan Sigrún Ólafsdóttir hlýtur verðlaunin að þessu sinni, en þeim fylgir yfirlitssýning á verkum hennar og bókaútgáfa um listferil hennar. Víðsjá sló á þráðinn til Þýskalands af þessu tilefni.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir