Steingrímur Eyfjörð sýnir þessa dagana ný verk Í Hverfisgalleríi við Hverfisgötuna. ?Syninign kallast Wittgenstein? & Félag um lifandi þjóðtrrú, en þetta er þriðja einkasýning Steingríms hjá galleríinu. Í verkum sýningarinnar á listamaðurinn í samtali við Wittgenstein um listina sjálfa sem fyrirbæri og um skynjun lita. Hann veltir fyirr sér ímyndunaraflinu, þjóðtrúnni og menningararfi sem mögulega er að hverfa. ?Í þessum samræðum öllum leggur listamaðurinn sjálfur línurnar og heilmikla þekkingu til, sem hann safnar að sér á afar opinn máta, laus við allt stigveldi og línulega formfestu,? segir í texta sýningarskrár eftir Birtu Guðjónsdóttur listfræðing.
Við lítum inn í Hverfisgallerí með Steingrími Eyfjörð í þætti dagsins.
Sjónvarpsþættirnir Orkestret, sem framleiddir eru af Danmarks Radio og áhugasamir geta nálgast í gegnum spilara RÚV, hafa vakið kátínu áhorfenda undanfarið. Þættirnir eru tragikómískir gamanþættir og karakterarnir eftir því ýktir, en þrátt fyrir þann safaríka efnivið sem hin sérstæða félagseining, sinfóníuhljómsveitin, getur talist hefur hingað til lítið verið framleitt af álíka efni. Við skoðum sjónvarpsþættina Orkestret og spáum í samfélag sinfóníuhljómsveita hér á eftir.
Jazzsaxófónleikarinn Pharoah Sanders, sem lést 81 árs gamall um síðustu helgi, var goðsögn í jazzheiminum. Hann spilaði stóra rullu í þróun fríjazz og trúarlegrar jazztónlistar frá og með sjöunda áratug síðustu aldar og hafði einkennandi og sérstæða nálgun í saxófónleik sínum. Sanders var þekktur fyrir notkun yfirtóna og hljómtóna, eða multiphonics, ásamt fleiri nýstárlegum aðferðum í spunalist. Hann lék í hljómsveit Johns Coltrane á sjöunda áratugnum og var að sögn Ornette Coleman, ?líklega besti tenórsaxófónleikari heims?. Eftir Sanders liggja yfir 30 plötur þar sem hann leikur leiðandi hlutverk, ásamt fjölmörgum öðrum samstarfsverkefnum. Heyrum annað brot af síðustu hljómplötunni þar sem snilli Pharoah Sanders fær að njóta sín, Promises. Platan var vínyll vikunnar hér á Rás 1 í lok janúar síðastliðins, svo áhugasamir geta hlustað á hana í heild sinni í spilara RÚV.
En við hefjum leikinn á leikhúsrýni. Nína Hjálmarsdóttir fór á gamanleikinn Bara smástund, sem frumsýndur var í Borgarleikhúsinu um síðustu helgi.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir