-Allt er eitur og ekkert er án eiturs. Aðeins skammtastærðin veldur því að eitthvað er ekki eitur-
Með þessari tilvitnun í 16. aldar alkemistann Paracelsus hefst skáldsagan Kákasus gerillinn, eftir Jónas Reyni Gunnarsson. Bókin kemur út í dag, og á sama tíma kemur líka út skáldsaga annars ungs rithöfundar, Dags Hjartarssonar, sem ber titilinn Ljósagangur. Þeir Dagur og Jónas Reynir hafa verið vinir í þónokkur ár og fara samferða í gegnum útgáfuferlið. Það þótti því tilvalið að fá þá félaga hingað í hljóðstofu og hlera samtal þeirra um bækurnar, útgáfuferlið og skáldskap í lífi og starfi.
Eftirtektarsamir hlustendur gætu hafa orðið þess varir að þulurinn og jazzgeggjarinn Pétur Grétarson hefur síðustu vikur slætt lögum í dagskrár Rásar 1 af nýrri plötu hljómsveitarinnar ADHD. Platan, sem kemur formlega ekki út fyrr en í næstu viku, ber þann einfalda titil 8, en um áttundu breiðskífu hljómsveitarinnar er að ræða. Hljómsveitina ADHD skipa bræðurnir Óskar og Ómar Guðjónssynir, Tómas Jónsson, og Magnús T. Eliassen, og þeir gleðja hlustendur í lok þáttar.
Listfræðafélag Íslands heldur á laugardag málþing í tilefni af 100 ára afmæli BJörns Th Björnssonar, rithöfundar og fræðimanns. Við minnumst Björns í dag með því að fara í smá ferðalag með honum um Rómarborg.
En við byrjum auðvitað þáttinn á fréttum dagsins, sem bárust frá Svíðþjóð rétt fyrir hádegi. Handhafi nóbelsverðlaunanna í bókmenntum í ár er franski rithöfundurinn Annie Ernaux. Ernaux er einn ástsælasti og áhrifamesti höfundur Frakklands, hún hefur í sínum verkum tekið á málefnum sem snerta á samfélagsumræðunni, hvort sem það er kyngervi, stétt eða staða. Hún fjallaði um þungunarrof í sinni fyrstu bók Les armoires vides, eða Cleaned out, og aftur 25 árum síðar í l?Evenement, eða Happening, en samnefnd kvikmynd, sem vann gullljónið á Cannes í fyrra, var einmitt byggð á þeirri bók. Ein skáldsaga Ernaux hefur komið út í íslenskri þýðingu. Það er bókin La Place, eða Staðurinn, í þýðingu Rutar Ingólfsdóttur, sem kom út hjá bókaútgáfunni Uglu fyrir fáeinum mánuðum.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir