Rúmur mánuður er í að heimsmeistaramótið í knattspyrnu hefjist í Katar. Mótið er haldið í skugga ásakana um gróf mannréttindabrot þarlendra stjórnvalda gegn farandverkafólki. Opinberum tölum stjórnvalda í Katar yfir þá sem hafa látist við uppbyggingu fyrir heimsmeistaramótið ber alls ekki saman við tölur sem fjölmiðlar og mannréttindasamtök hafa. Þau síðarnefndu segja þúsundir farandverkamanna hafa látist frá áriu 2010 þegar Katar var valið sem mótshaldari árið 2022. Stjórnvöld í Katar skrá hins vegar andlát langflestra verkamanna af náttúrulegum orsökum. Birta Björnsdóttir og Bjarni Pétur Jónsson fjalla um heimsmeistaramótið í skugga mannréttindabrota og ræða við Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamann og Bryndísi Bjarnadóttur, herferðastjóra Íslandsdeildar Amnesty International.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði til kosninga fyrr í þessari viku. Þær fara fram fyrr en áætlað var, nánar tiltekið 1. nóvember. Fjórir danskir stjórnmálaflokkar hafa skipt um forystu á kjörtímabilinu sem sömuleiðis hefur einkennst af ýmsum hneykslismálum. Hallgrímur Indriðason fer yfir pólitíkina í Danaveldi og nýtur aðstoðar Boga Ágústssonar í yfirferð sinni.
Heimskviður er fréttaskýringaþáttur um erlend málefni, um allt það sem gerist ekki ekki á Íslandi. Umsjón með þættinum hafa Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.