Í Svíþjóð hafa nokkrir fyrrverandi stjórnmálmenn og áhrifamenn í stjórnmálum hagnast gríðarlega undanfarin ár, með því að staðsetja sig á mörkum stjórnmála og atvinnulífs. Sumir hafa grætt á einkavæðingu sem þeir stóðu sjálfir að. Aðrir hafa farið að starfa sem lobbýistar nær strax og þeir hættu í stjórnmálum. Óljós mörk stjórnmálaþátttöku, hagsmunagæslu og fyrirtækjareksturs hafa verið gagnrýnd í Svíþjóð, líkt og í Danmörku, Þýskalandi og víðar. Líkt og Kári Gylfason, tíðindamaður okkar í Gautaborg, fjallar um.
Instagram- og Twitterreikningum Kanye West var lokað fyrr í mánuðinum. Ástæðan er hatursorðræða tónlistargoðsagnarinnar, nánar tiltekið það sem fjölmiðlar kalla gyðingahatur. West, sem hefur nú breytt nafni sínu í Ye, var gagnrýndur harðlega fyrir ummæli sín sem hann lét falla bæði á samfélagsmiðlum og í viðtölum um miðjan mánuðinn. NBC greindi frá færslu, sem West eyddi reyndar, þar sem hann deildi skilaboðum á milli sín og rapparans Sean Combs, betur þekktur sem Puff Daddy eða P Diddy, þar sem West fullyrti að Combs væri undir stjórn gyðinga og vitnaði síðan í kenningar sem eru byggðar á gyðingafordómum, andúð og jafnvel hatri. Sunna Valgerðardóttir skoðaði það nýjasta, og smávegis af því gamla, sem er að frétta af furðufuglinum og tónlistargoðsögninni Kanye "Ye" West.
Í Heimskviðum er fjallað um það sem gerist ekki á Íslandi. Umsjónarmenn þáttarins eru Birta Björnsdóttir, Bjarni Pétur Jónsson og Sunna Valgerðardóttir.