Spegillinn 31. október 2022 Umsjón: Kristján Sigurjónsson Tæknimaður: Kormákur Marðarson Íslendingur sem flúði innrásina í Úkraínu hefur snúið aftur til Kyiv og ætlar að einangra hús sitt á íslenskan máta, vegna lítils orkuöryggis í landinu. Hann segist vart trúa því að búa í þessum aðstæðum. Danir kjósa til þings á morgun og það stefnir í mest spennandi kosningar í landinu síðan fyrir aldamót. Enn er óvíst hvenær skýrsla Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka lítur dagsins ljós. Nokkur skjálftavirkni var bæði við Bárðarbungu og Herðubreið í dag. Yfir hundrað tonn af graskerjum hafa selst hér á landi í tilefni af hrekkjavöku sem er í dag. Olaf Scholz kanslari Þýskalands gagnrýndi í dag loftslagsmótmælendur fyrir að gera fræg listaverk að skotmarki sínu í aðdraganda COP27-ráðstefnunnar í Egyptalandi. Á hin rammíslensku jólaborð bætast nú danskir humrar við skosku rjúpurnar. Lengri umfjöllun: Ársverðbólgan í þeim 19 löndum Evrópu þar sem evran er gjaldmiðill mælist núna að meðaltali 10,7 prósent. Hún hefur aldrei áður mælst svo mikil í rúmlega 20 ára sögu evrunnar. Þetta kemur fram í tölum Evrópsku hagstofunnar - Eurostat- sem birtar voru í dag. Það er einkum orku- og matarverð sem hefur hækkað. Orkuverð hefur hækkað um tæp 42 prósent á einu ári í Evruríkjum og sú hækkun kemur verulega við pyngjuna hjá evrópskum almenningi og fyrirtækjum. Kristján Sigurjónsson ræðir við Katrínu Ólafsdóttur hagfræðing og dósent við Háskólann í Reykjavík um efnahagsástandið í Evrópu og áhrif þess hér á landi. Þann sjötta nóvember hefst loftslagsráðstefnan COP 27 í Egyptalandi. Ríki heims koma þar saman til að leggja á ráðin um stöðu loftslagsmála og stilla saman strengi sína í baráttunni við loftslagsvána. Sendinefnd fer frá Íslandi á ráðstefnuna sem formlegur málsvari landsins, en þar verða einnig fleiri fulltrúar. Helga Barðadóttir fer fyrir sendinefnd Íslands á COP-27. Bjarni Rúnarsson talar við Helgu. Í Sao Paulo og víðar í Brasilíu brast á með söng og dansi meðal stuðningsfólks Luiz Inacio Lula da Silva, forsetaframbjóðanda vinstrimanna, þegar hann seig fram úr andstæðingnum Jair Bolsonaro forseta, frambjóðanda hægrimanna, í gærkvöld. Ásgeir Tómasson segir frá forsetakosningunum í Brasilíu.