Spegillinn: 6. október 2022
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að orkureikningar séu að sliga heimili og fyrirtæki í Evrópu. Orkuskortur og óvissa í öryggismálum voru til umræðu á nýstofnuðum vettvangi þjóðarleiðtoga álfunnar í dag. Bjarni Rúnarsson tók saman.
Tveir menn sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka verða áfram í gæsluvarðhaldi og einangrun. Þeir hafa verið í einangrun frá handtöku 21. september og verjendur þeirra hafa kært úrskurðinn til Landsréttar
Möguleg verkfallsboðun verður rædd á formannafundi Sjómannasambandsins í Vestmannaeyjum um helgina. Fyrsta desember verða þrjú ár liðin frá því að kjarasamningur sjómanna rann út. Arnar Björnsson sagði frá.
Mennta- og barnamálaráðherra segir of langan tíma hafa tekið að bregðast við röddum þolenda. Steinn Jóhannsson, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð segir að gera megi betur en að hlustað sé á raddir framhaldsskólanema sem þrýsta á stjórnvöld og skólastjórnendur að taka á ásökunum um kynferðisofbeldi af meiri þunga. Sólveig Klara Ragnarsdóttir tók saman. Heyrist líka í Urði Bartelsdóttur af samstöðufundi nemenda.
Tveir eru sárir eftir skotárás í sænsku borginni Södertälje. Þetta er fimmta skotárásin þar á tveimur vikum.
Spariútgáfa bleiku slaufunnar til styrktar Krabbameinsfélaginu seldist upp í dag. Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir talaði við Árna Reyni Alfreðsson, forstöðumann markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu.
-------
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra segir að framundan séu erfiðir tímar í orkumálum í Evrópu. Ísland njóti forréttinda af því að vera auðugt af orkuauðlindum. Björn Malmquist talaði við hana.
Ólíkt hafast þeir að, fjármálaráðherrarnir í Noregi og Bretlandi, nú þegar almúganum er boðið upp á ný kreppufjárlög. Fólk í báðum löndum býr við vaxandi verðbólgu, vaxtahækkanir og óbærilega rafmagnsreikninga. Gísli Kristjánsson skýrir hvernig þessu víkur við.
Björgunarsveitir í borginni Zaporizhzhia í Úkraínu hafa í dag leitað að fólki á lífi í rústum fjölbýlishúsa sem urðu fyrir flugskeytaárás síðla nætur og í morgun. Að minnsta kosti þrír létust í árásinni. Ásgeir Tómasson tók saman. Oleksandr Starukh, ríkisstjóri Úkraínustjórnar í Zaporizhzhia, Stéphane Dujarric talsmaður Sameinuðu þjóðanna. Laura Rockwood, kjarnorkusérfræðingur .