Spegillinn 15.nóvember 2022
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Kormákur Marðarson
Íslandsbankaskýrslan staðfestir að margt hafi farið úrskeiðis í sölunni segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Umræður um skýrsluna hafa staðið yfir í allan dag á Alþingi.
Rússar gerðu í dag einhverjar mestu loftárásir á Úkraínu frá því innrásin hófst. Sprengjur féllu á íbúðahverfi í höfuðborginni og rafveitur víða í landinu.
Íslendingar hafa ekki sjálfstæða getu til að meta ógnir og varnarþörf, segir prófessor í stjórnmálafræði.
Jarðarbúar eru orðnir átta milljarðar. Stöðugt dregur úr fæðingartíðninni en fólk lifir sífellt lengur en áður.
Byggingakrani féll á þak Akraneshallarinnar í dag. Börn voru við íþróttaæfingar í húsinu en engan sakaði.
Mikil úrkoma hefur verið á austanverðu landinu í dag. Úrkoman á Eskifirði mældist 93 millimetrar síðasta sólarhring og spáð er rigningu þar til morguns.
EFTA-dómstóllinn tekur á næstunni afstöðu til þess hvort lánaskilmálar Landsbankans teljist löglegir. Niðurstaðan gæti haft fordæmi fyrir tugþúsundir lána.
Lengri umfjöllun:
Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Íslandsbankasöluna var tilefni sérstakrar umræðu á Alþingi í dag. Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og þingmaður Samfylkingarinnar fór í upphafi yfir skýrsluna og Bjarni Benediktsson brást við í andsvari. Það heyrist í þeim og þingmönnunum Ásthildi Lóu Þórsdóttur, Sigmari Guðmundssyni, Kristrúnu Frostadóttur og Sigmundi Davíð Gunnlaugsyni. Bjarni Rúnarsson tók saman.
Nærri níu mánuðir eru nú liðnir frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu. Margir héldu að Rússar myndu fljótlega ná öllum völdum vegna hernaðarlegra yfirburða, en reyndin hefur orðið önnur. Mótspyrna Úkraínumanna hefur verið miklu öflugri en flestir gerðu ráð fyrir og í ljós hefur komið að rússneski herinn glímir við mikinn innri vanda, spillingu, agaleysi og úrsérgengin vopn. Kristján Sigurjónsson ræddi við Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra í Moskvu og sérfræðing í öryggismálum.
Áttundi milljarðasti jarðarbúinn kom að líkindum í heiminn í dag. Útlit er fyrir að það dragi úr fjölguninni á næstu áratugum. Eftir að sá tíundi milljarðasti fæðist einhvern tíma á níunda áratug aldarinnar má reikna með að jarðarbúum taki að fækka. Ásgeir Tómasson segir frá.