Spegillinn 24.okt. 2022
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Mark Eldred
Töluverð fækkun millistjórnenda Landspítalans er boðuð í breytingatillögum sem forstjórinn hyggst kynna heilbrigðisráðherra í næstu viku.
Hagfræðingur í Landsbankanum telur nánast ómögulegt að lífeyrissjóðirnir geti gefið eftir kröfur í ÍL-sjóð vegna bágrar stöðu hans og ríkið geti ekki einfaldlega breytt forsendum allt í einu.
Sprenging varð um borð í flutningaskipi skammt suður af landinu í dag. Enginn slasaðist en gert er ráð fyrir að varðskipið Þór dragi skipið til hafnar.
Rishi Sunak verður næsti forsætisráðherra Bretlands. Hann var á endanum sá eini sem gaf kost á sér sem næsti leiðtogi flokksins.
Gangi allt að óskum við heitavatnsleit austan við Lagarfljót gætu HEF-veitur átt nægt vatn til að kynda öll hús á Seyðisfirði.
Nokkrir vaskir menn fóru um helgina í leiðangur inn í Glerárdal, ofan Akureyrar til þess að sækja rúmlega 20 eftirlegukindur.
Nýr upplýsingavefur um baráttu rauðsokkuhreyfingarinnar var opnaður í dag á kvennafrídaginn.
Lengri umfjöllun:
Nýr forsætisráðherra er við sjónarrönd í Bretlandi, sá þriðji á sjö vikum. Ljóst varð í hádeginu að Rishi Sunak, fyrrverandi fjármálaráðherra, hafði tryggt sér embætti leiðtoga Íhaldsflokksins og tekur þar af leiðandi við af Liz Truss á morgun eftir að hafa haldið á fund Karls konungs í Buckinghamhöll. Ásgeir Tómasson sagði frá.
Ari Skúlason hagfræðingur í Landsbankanum telur nánast ómögulegt að lífeyrissjóðirnir geti gefið eftir kröfur í ÍL-sjóð vegna bágrar stöðu hans og ríkið geti ekki einfaldlega breytt forsendum allt í einu. ÍL sjóður tapar einum og hálfum milljarði á mánuði og fyrirsjáanlegt að verði ekkert að gert þá verði skuldin orðin 450 milljarðar 2044. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í síðustu viku að nauðsynlegt væri að horfast í augu við vandann strax og láta hann ekki halda áfram að vaxa. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Ara Skúlason.
Ört hækkandi vextir leika nú sænska húsnæðiseigendur grátt. Skuldir landsmanna eru með því mesta sem þekkist í Evrópu, enda voru vextir lengi afar lágir. Haldi þeir áfram að hækka gæti um hálf milljón landsmanna neyðst til að flytja. Kári Gylfason í Gautaborg segir frá.