Spegillinn 28. nóvember 2023
Umsjón: Kristján Sigurjónsson
Tæknimaður: Kormákur Marðarson
Fjármálaráðherra boðar aukin fjárframlög til heilbrigðis- og löggæslumála í breytingatillögu við fjárlagafrumvarpið sem var lögð fram í dag. Heildarútgjöld ríkisins aukast um fimmtíu milljarða.
Stjórnvöld í Úkraínu segja linnulausar árásir Rússa á orkuinnviði vera þjóðarmorð. Í höfuðborginni Kiev er hitinn um frostmark á nóttunni og húshitun víða mjög skert. Íslendingur í borginni segir ástandið þó þolanlegt þar sem lygnt er í veðri.
Formaður Eflingar segir að kjaraviðræður við atvinnurekendur gangi hægt. Hún segir að sú stund nálgist að viðræðum við Samtök atvinnulífsins verði vísað til ríkissáttasemjara.
Kínversk lögregla hefur yfirheyrt mótmælendur í dag og krafist upplýsinga um ferðir þeirra.
Starfsmanni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið vikið úr starfi fyrir að dreifa myndskeiði sem sýndi hnífaárásina á næturklúbbnum Bankastræti Club.
Brasilía tryggði sér sæti í 16 liða úrslitum HM karla í fótbolta með 1-0 sigri á Svisslendingum
Lengri umfjöllun:
Harður vetur í kjarasamningum var margboðaður. Lífskjarasamningarnir sem gerðir voru 2019 og giltu fyrir bróðurpart almenna vinnumarkaðarins runnu út um mánaðamótin eins og alltaf var vitað og við tók samningagerð. Mikil spenna er á vinnumarkaði en við tilkynningu um 10. stýrivaxtahækkunina í röð um miðja síðustu viku má segja að brostið hafi á með hvelli og staðan er ef eitthvað er erfiðari en Katrín Ólafsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík spáði þegar hún tók saman skýrslu í vor um stöðu og horfur á vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Katrínu.
Reglur og lög um nýtt flokkunarkerfi sorps taka gildi um áramótin . Stóra breytingin fyrir almenning er sú að nú verður að flokka lífrænan úrgang eins og matarúrgang sér - hann má ekki vera með öðrum blönduðum úrgangi - og þennan lífræna úrgang má ekki setja í plastpoka, heldur sérstaka pappírspoka. Þessari reglu hefur reyndar verið fylgt um árabil hjá mörgum sveitarfélögum víða um land, en ekki á höfuðborgarsvæðinu, þar sem mismunandi flokkunarreglur eru í gildi. Nú stendur til að samræma þessar reglur í áföngum á næsta ári. Gunnar Dofri Ólafsson er samskipta- og þróunarstjóri hjá Sorpu.
Kristján Sigurjónsson talar við hann.