Sjöundi þáttur Trivíaleikanna, en að þessu sinni var hið goðsagnakennda stúdíó 9A fyllt trivía-reynsluboltum sem og tveimur nýjum keppendum. Þá var einnig eitthvað bogið við dómara, spurningahöfund og þáttastjórnanda að þessu sinni því hann líkist ekkert fyrrum þáttastjórnanda, hvorki í skeggvexti né í skoðunum á ágæti íslenska vegakerfisins. Já það var enginn annar en Arnór Steinn sem tók að sér stöðu þáttastjórnanda að þessu sinni og í fyrsta sinn settist enginn annar en stofnandi Trivíaleikanna Daníel Óli í keppnissætið ásamt Hnikarri Bjarma. Þeir tveir kepptu gegn Trivíaleika-reynsluboltunum Inga og Jóni Hlífari í reginslag vitsmuna og fimm-aura sem hristi stoðir stúdíósins. Hvort er Mancop ofurhetja á vegum Marvel og DC eða ávöxtur ímyndunarafls Arnórs Steins? Hvaða íslenska skáld gaf frá sér ljóðabókina Svartálfadans? Hver var eina skáldsaga Oscars Wilde í fullri lengd? Þetta og margt annað er tæklað í þættinum.