Nýverið bárust fregnir af því að bókabíllinn muni aka sína síðustu ferð undir lok þessa árs. Þegar bílnum verður lagt í hinsta sinn mun 53 ára sögu þessa menningarfyrirbærist ljúka, endalok sem lestrarhestar og nostalgískar sálir eflaust syrgja. Ástæðan er viðbragð við hárri niðurskurðarkröfu borgarinnar, en bókabíllinn er fyrir löngu komin til ára sinna og kostar skv borgarbókaverði hátt í 100 milljónir að endurnýja hann. Við lítum inn í bílinn í þætti dagsins.
Fyrr í þessum mánuði kom ljóðsaga Bergþóru Snæbjörnsdóttur, Allt sem rennur, út hjá Benedikt forlagi. Á morgun er svo útgáfudagur nýrrar skáldsögu eftir Kristínu Eiríksdóttur, sem ber titilinn Tól. Þær Bergþóra og Kristín lásu yfir handritin hjá hvor annarri og settust niður til að ræða ritferlið, heimildavinnu og mörk skáldskapar og veruleika sín á milli. Við fáum að vera fluga á vegg í því samtali undir lok þáttar.
Í Borgarleikhúsinu standa nú yfir sýningar á uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Hamingjudögum eftir Samuel Becketts. Það er Harpa Arnardóttir sem leikstýrir uppsetningu á verkinu sem talið er eitt höfuðverka Becketts. Eva Halldóra Guðmundsdóttir segir frá sinni upplifun.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir