Á sýningunni Blind date, sem opnaði í Ásmundarsal um helgina, umbreytist innihald pennaveskis í himingeiminn, alda gleypir harmónikkuslóð á kínverskri strönd, plútóblýantur mætir jafnóðum strokleðrum í yfirstærð og tilfinningin fyrir víðáttunni í hversdagsleikanum er kitluð úr öllum höfuðáttum. Við bregðum okkur í hlutverk þriðja hjólsins með myndlistarmönnunum Kristínu Karólínu Helgadóttur og Sigurði Guðmundssyni í þætti dagsins. Við kynnum okkur líka dagskrá Frönsku kvikmyndahátíðarinnar, sem haldin verður í tuttugasta og sjötta skiptið dagana 23. janúar til 1. febrúar, og ræðum við Ásu Baldursdóttur, dagskrárstjóra Bíó Paradís. Til að brúa bilið milli umfjallana rifjum við auk þess upp hugleiðingar Páls Skúlasonar um Útlending Alberts Camus.