Á plötunni Persian Path frá árinu 2020 renna saman íslensk og írönsk þjóðlagatónlist í útsetningum tónlistarmannsins Ásgeirs Ásgeirssonar. Undanfarin ár hefur Ásgeir sótt sinn tónlistarlega innblástur austur til Balkansskaga og Mið-Austurlanda. En bakgrunnurinn er öllu hefðbundnari vestrænt popp og rokk hér heima. Við ræðum við Ásgeir Ásgeirsson um tónlist þessara ólíku menningarheima í lok þáttar.
Aðdráttarafl Verksmiðjunnar á Hjalteyri á listamenn er óumdeilanlegt. Staðsetning hennar á jaðrinum, hvort sem miðað er við íslenskan eða alþjóðlegarn listheim, í rústum gamals síldarævintýris, sveipar hana ákveðnum ljóma. Hún á þátt í að skapa ímynd sem hið fullkomna listamannarekna rými þar sem starfsemin er óháð stigveldi, stofnunum og pólitískum áformum um uppbyggingu. Svo segir í texta listfræðingsins Margrétar Elísabetar Ólafsdóttur í bók sem er nýkomin út; Draumarústir. Útgáfan fagnar 10 ára afmæli Verksmiðjunnar á Hjalteyri, við ræðum við Margréti Elísabetu í þætti dagsins .
Einnig fáum við sendingu frá Feneyjum. Hópur nýtúrskrifaðra listfræðinga, listamanna, kvikmyndafræðinga, listheimspekinga og menningarmiðlara dvelja nú í Feneyjum og sjá um íslenska skálann á Feneyjatvíæringnum. Næstu vikur munu Víðsjá berast pistlar frá þessum hópi þar sem þau segja okkur frá tvíæringum og því sem hæst ber í listheiminum um þessar mundir. Fyrsti pistillinn berst frá Eyju Orradóttur kvikmyndafræðingi. Eyja veltir fyrir sér myndbandsverkum á hátíðinni, framsetningu verkanna og miðlinum sjálfum. Á myndbandsmiðillin vel við á hátið þar sem gestir ráfa um og skoða verk tilviljunarkennt og í stutta stund? Heyrum þær vangaveltur hér á eftir.
En við byrjum í leikhúsinu. Eva Halldóra Guðmundsdóttir fór að sjá Heimferð, brúðuleikhús sem fer fram í húsbíl sem ferðast um landið. Það er brúðuleikhúshópurinn Handbendi, sem skapar þessa sýningu, en hópurinn hefur aðsetur á Hvammstanga er er handhafi Eyrarrósarinnar.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Jóhannes Ólafsson