„Þetta er einhver huglæg efnafræði. Að blanda saman elementum og sjá hvaða líðan maður upplifir út frá því,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, um starf listamannsins. Hún segir vinnustofuna vera einskonar rannsóknarstofu þar sem allt í einu, eins og fyrir einskæran galdur, passi allt og úr verður verkið sem átti að koma. „Og maður er bara fullviss, án þess að hafa nokkuð fyrir sér í því nema tilfinninguna.“
Hrafnhildur hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín úr hári, hefur sýnt víða um heim og var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2019. Hún fann snemma út að henni leið best skapandi og leiðin að listinni var nokkuð greið. U-beygjuna í Verslunarskólann segir hún hafa verið góðan skóla því það sé hollt að finna sig á rangri hillu. Annar góður skóli var að starfa meðfram listnámi í Fríðu frænku. Þar lærði Hrafnhildur líka að stefna hátt og dreyma stórt. Draumarnir fóru svo að rætast eftir framhaldsnám í New York þar sem Hrafnhildur hefur nú búið hálfa ævina.