Í Víðsjá í dag verður meðal annars haldið vestur á Granda, og komið við í Kling og Bang-galleríinu í Marshall húsinu þar sem að þrír ungir myndlistarmenn verða heimsóttir. Það eru þau Darren Mark, Dýrfinna Benita Basalan og Melanie Ubaldo; íslenskir listamenn að filippeyskum uppruna, sem saman mynda listahópinn Lucky 3 (three) og standa nú að sýningunni Lucky me? þar í galleríinu. Björn Þór Vilhjálmsson rýnir í dag í bókina HKL - Ástarsögu eftir Pétur Gunnarsson þar sem Pétur dregur upp mynd af Halldóri Laxness í upphafi ferils hans, ástum hans og lífsátökum. Pétur leitar víða fanga í þessu verki, meðal annars í einkabréfum, minnisbókum, tímaritum og auðvitað verkum Nóbelsskáldsins sjálfs. Hlustendur fá einnig að heyra tónverk sem frumflutt var á Tónlistarhátíð Rásar 1 - Orðin hljóð - sem fram fór í Norðurljósasal Hörpu á dögunum. Í dag er röðin komin að verki sem nefnist Klakabrennur II og er eftir Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur sem valdi sér skáldið Sigurbjörgu Þrastardóttur til samstarfs. Strokkvartettinn Siggi flytur ásamt Hildigunni Einarsdóttur söngkonu.
Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson.