Við höldum áfram að glugga í bækur skáldkvenna með Þorgerði Ásu og Magneu Þuríði Ingvarsdóttur, en Magnea Þuríður heldur úti facebook síðunni Tófan þar sem hún vekur athygli á ljóðum skáldkvenna 19. aldar) í þetta sinn ræða þær stöllur um Ólínu Jónasdóttur frá Silfrastöðum í Skagafirði.
Snorri Rafn Hallsson, dagskrárgerðarmaður og textasmiður í Vín heldur áfram pistlaröð sinni um möguleika og ómöguleika tækninnar. Í þetta skiptið eru þjarkar, vélmenni og gervigreind til umföllunar. Hvaða lögmál gilda um slíka tækni, og hvernig má hafa stjórn á henni?
Á dögunum kom út skáldsaga sem kallast Konan hans Sverris, eftir Valgerði Ólafsdóttur en þetta er fyrsta bók höfundar. Bókin fjallar um Hildi sem er laus úr hjónabandi við mann sem beitti hana ofbeldi. Sagan fjallar um ofbeldi og hvernig það nær að skjóta rótum á lúmskan hátt. En þetta er líka saga af því hvernig Hildur nær að losa þær rætur og vaxa á ný. Við ræðum við höfundinn í þætti dagsins