Við erum með hugann við kvenréttindi á kvenréttindadaginn. Við tölum við konur, heyrum af konum og minnumst kvenna sem rutt hafa brautina, með einum eða öðrum hætti.
Myndasöguhöfundurinn Elín Edda Þorsteinsdóttir, hefur sent frá sér nýja bók sem fjallar um Glingurfuglinn, þar kemur minni og gleymska við sögu og líka konur, þó það sé ekki augljóst svona við fyrstu sýn. Elín Edda verður gestur okkar seinna í þættinum.
Bók vikunnar er Samastaður í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur, en við heyrum upplestur Steinunnar Sigurðardóttur úr bókinni frá árinu 1989.
Og íslenskar konur söðla um, bæði lifandi og liðnar, en Guðrún Ósvífursdóttir vaknaði til lífs í framhaldsleikriti sem flutt hefur verið í breska ríkisútvarpinu að undaförnu. Bogi Ágústsson tók saman pistil um efnið, en lesarar auk hans eru Sigurlaug Jónasdóttir, Einar Örn Jónsson, Ísgerður Gunnarsdóttir og Ragnhildur Thorlacius.
Catherine Westling er líka gestur þáttarins, en hún flytur í dag einleik um sænskar súffragettur í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Föregångerskan / Þær sem mörkuðu brautina. Við ræðum við hana um kvennabaráttuna þá og nú.
Við heyrum einnig brot úr þættinum Maddama kerling fröken frú, í umsjón Ástu B. Thoroddsen, Ásdísar Skúladóttur og Guðfinnu Ragnarsdóttur, en þátturinn var sendur var út á Kvenréttindadaginn árið 1969.
Umsjónarmaður: Halla Þórlaug Óskarsdóttir