Guðrún Ingólfsdóttir doktor í íslenskum bókmenntum hefur í rannsóknum sínum beint sjónum að bókmenntum fyrri alda, einkum frá miðöldum og 18. öld. Það var ekki fyrr en á 19. öld að konur á Íslandi fengu sumar að setjast á formlega skólabekki. Áður fór menntun þeirra einkum fram heima eða þær voru sendar í læri hjá konum, aðallega prestfrúm sem ráku heimaskóla. Handrit í eigu kvenna hafa lengi verið Guðrúnu hugleikin og í bókinni Skáldkona gengur laus (2021) beinir hún sjónum að fjórum skáldkonum frá 19. öld, en í kveðskap þeirra má sjá skýra sjálfsmynd og skýran menningarlegan bakgrunn og merkilega afstöðu til náttúrunnar og ímyndunaraflsins. Guðrún kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá því sem hún ætlar að ræða á Borgarbókasafninu í Menningarhúsinu í Spönginni í dag undir yfirskriftinni Guðhræðslan, náttúran, greddan.
Við fengum í dag nýjan vinkil frá Guðjóni Helga Ólafssyni, nýjum pistlahöfundi þáttarins. Hann er að eigin sögn skúffuskáld og þjóðfræðiáhugamaður úr Flóanum sem hefur stundað í nokkur ár að búa til pistla og birta á samfélagsmiðlum. Guðjón býr með fjölskyldu sinni á bænum Sviðugörðum í gamla Gaulverjabæjarhreppi en stundar ekki hefðbundinn búskap, heldur nokkrar hænur, ræktar tré og svolítið af kartöflum til heimilis- og einkanota. Pistlana kallar hann vinkla og í vinkli dagsins fjallaði hann um hljóð og óhljóð, jafnvel hávaða.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Guðrún Óla Jónsdóttir, blaða- og söngkona. Við fengum að vita hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina.
Tónlist í þættinum í dag:
Átján rauðar rósir / Lúdó og Stefán (Bobby Darin, Iðunn Steinsdóttir)
Ég vil fara upp í sveit / Ellý Vilhjálms (Bonagura, Sciorilli, Danpa og Jón Sigurðsson)
Gestir út um allt / Hrekkjusvín (Valgeir Guðjónsson og Pétur Gunnarsson)
Ég leitaði blárra blóma / Hörður Torfason (Hörður Torfason og Tómas Guðmundsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON