Mamma, mamma, börn og bíll. Hinsegin fjölskyldur í fjölmiðlum 2010-2021 er nafnið á fyrirlestri sem fram fer á fimmtudaginn og er hluti af hádegisfyrirlestraröð RIKK, Rannsóknarstofnunar í jafnréttisfræðum við HÍ. Það er ekki nýtt að hinsegin fólk stofni fjölskyldu og ali upp börn en leið þess að fjölskyldumyndun hefur verið misgreið eftir tímabilum og samfélagsháttum. Í fyrirlestrinum er fjallað um rannsókn sem stendur yfir á birtingamyndum hinsegin fjölskyldna í prentmiðlum á Íslandi á árunum 2010-2021. Íris Ellenberger, sagnfræðingur og dósent við mennta- og vísindasvið Háskóla Íslands, flytur fyrirlesturinn ásamt Auði Magndís Auðardóttur, lektor í uppeldis- og menntunarfræði. Íris kom í þáttinn og sagði okkur meira frá þessu.
Stórsveit Reykjavíkur fagnar 30 ára afmæli með stórtónleikum í Eldborg 18. september og í tilefni af afmælinu býður Stórsveitin landsmönnum á ókeypis á tónleikana. Á þriggja áratuga ferli hefur Stórsveit Reykjavíkur haldið vel á þriðja hundrað tónleika og gefið út 10 geisladiska. Sveitin hefur lagt sig eftir fjölbreyttu verkefnavali, frumflutt mikið af nýrri íslenskri tónlist, leikið sögulega mikilvæga stórsveitatónlist, leikið fyrir börn og átt samstarf við fjölmarga aðila af sviði íslenskrar popptónlistar. Sveitin hefur margsinnis hlotið íslensku tónlistarverðlaunin. Sigurður Flosason kom í þáttinn í dag.
Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar kom svo til okkar og sagði frá því sem verður á fjölunum fyrir norðan í vetur og rifjaði upp skemmtilega sögu þegar hún stökk samdægurs inn í eitt af aðalhlutverkunum í söngleiknum Chicago í Borgarleikhúsinu árið 2004, en sá söngleikur er einmitt á dagskrá LA í vetur.
Tónlist í þættinum í dag:
Stella í orlofi / Diddú (Valgeir Guðjónsson)
Down South Camp Meeting / Manhattan Transfer (Irving Mills)
23 In the mood / Stórsveit Reykjavíkur (Glenn Miller, Andy Razaf og Joe Garland)
Razzle dazzle / Richard Gere (John Kander og Fred Ebb)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON