Gestur svipmyndar er Óskar Árni Óskarsson. Hann er fæddur í Reykjavík árið 1950 og var ekinn heim af spítalanum á feiknar stórum, rauðum olíubíl frá Esso. Hann ólst upp í Þingholtunum nánast í bakhúsi Borgarbókasafnsins en flutti síðan í Skipholtið á unglingsárum en þar las hann uppgötvaði helstu skáld samtíma síns. Óskar hefur lengi fengist við ljóðagerð, smáprósagerð, myndljóðasmíði, útgáfu og þýðingar. Árið 1986 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók, Handklæði í gluggakistunni og 1997 sína fyrstu smáprósabók, Vegurinn til Hólmavíkur. Á ferli sínum hefur Óskar hlotið Ljóðstaf Jóns úr Vör og viðurkenningu úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins og árið 2008 var bók hans, Skuggamyndir úr ferðalagi, tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.