Svikaskáld heimsækja Víðsjá, þær Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Fríða Ísberg, en von er á nýrri ljóðabók úr þeirra smíðum á kvenréttindadaginn, 19. júní, Ég er fagnaðarsöngur. Við ræðum um sköpunarferlið og ýmislegt úr reynsluheimi kvenna.
Í þættinum verður spilað brot úr verkinu Átak eftir Kolfinnu Nikulásdóttur en það er hluti af verkefninu Blesugróf þar sem þrjú leikskáld bjóða áhorfendum í ferðalag um samnefnt hverfi í Reykjavík, verkið er hluti af Listahátíð í Reykjavík. Þar eiga auk Kolfinnu verk Mikael Torfason og Soffía Bjarnadóttir, Þetta eru semsagt þrjú ný ör-leikverk á ólíkum stöðum í hverfinu og munu áhorfendur ganga um í litlum hópum og njóta hvers verks á stað sem því hæfir, innandyra sem utan.
Guðrún Eva Mínervudóttir les brot úr skáldsögu sinni Skegg Raspútíns sem kom út árið 2016.
Og rætt verður rætt við Hrafnkel Sigurðsson myndlistarmann um sýningu hans Upplausn sem nú er í Hverfisgalleríi neðst við Hverfisgötu í Reykjavík. Hrafnkell horfir þar út í geim og aftur í tímann og finnur efni í tóminu.