Að hlusta á hið mjúka í sér er gríðarlega mikilvægt, svo segir Katrín Gunnarssdóttir, dansari og danshöfundur. Katrín er höfundur Öldu, innsetningar með hljóði og átta dönsurum, sem dansar á mörkum sviðslita og myndlistar. Katrín sækir í sögu líkamlegrar vinnu kvenna og skoðar sérstaklega endurteknar hreyfingar og söngva. Katrín hefur tekið virkan þátt í að móta danssenuna í Reykjavík síðustu ár og meðal annars unnið að því að byggja upp hreyfitungumál og myndmál þar sem lágstemd mýkt, viðkvæmni og samruni líkama við umhverfi sitt leika lykilhlutverk.
Um borð í flugvél. Það er hugguleg stemning, lampar og pottaplöntur. Svona hefst lýsingin á sviðsmynd leikritsins Ókyrrð eftir Brynju Hjálmsdóttur skáld. Leikritið kom út á bók hjá Unu útgáfuhúsi. Þetta er gamanleikur í þremur hlutum og fjallar um dularfulla flugferð, háska í háloftunum. Það geisar heimsfaraldur, þó ekki covid heldur fuglaflensa og um borð eru aðeins tveir farþegar, flugstjóri og flugfreyja og hún er miðpunktur verksins. Það er ókyrrð í lofti í þessu ærslafulla verki sem fjallar um þrána eftir jafnvægi í óstöðugleikanum, stjórn á eigin tilveru og það að fljúga úr hreiðrinu.
Árið 1991 leystist 300 milljóna manna stórveldi upp svo gott sem á einni nóttu, ný ríki urðu til á gömlum grunni og íbúarnir þegnar þeirra. Þar á meðal Rússneska sambandsríkið sem hafði lýst því yfir að þar yrði lýðræði og forsetaræði, og nefndi 12. júní sjálfstæðisdag þjóðarinnar. Sá dagur var haldin hátíðlegur um allt Rússlands í gær. Hér í Reykjavík skipulagði hópurinn Rússar gegn stríði viðburð framan við rússneska sendiráðið sem þau kölluðu Sjálfstæði frá Pútín. Victoria Bakshina var ein þeirra sem tók til þar til máls, en hún er einmitt nýr pistlahöfundur hér hjá okkur í Víðjsjá. Victoria mun flytja okkur pistla á næstu vikum um sögu Rússlands eftir hrun Sovétríkjanna, hugmyndafræði og menningarátök. Victoria er menntaður málfræðingur og tungumálakennari frá Rússlandi. Hún hefur búið á Íslandi síðan 2016, starfar sem rússnesku- og íslenskukennari, þýðandi og túlkur, og er einnig fastur penni Lestrarklefans.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Jóhannes Ólafsson