Þegar Valur Freyr Einarsson, leikari og höfundur, fór um miðjan aldur að upplifa fjölda skilnaða í sínu nánasta umhverfi, varð honum ljóst hversu mikil umpólun og dramatísk bylting þetta ferli getur verið í lífi fólks. Kannski ekki síst þegar fyrrum makar halda áfram að vera hluti af nýju lífi. Valur fór að skoða hjónabandið í öllum sínum víddum, taka viðtöl við fólk sem hafði upplifað skilnað og allt sem því umbreytandi ferli fylgir. Útkoman er nýtt leikverk, Fyrrverandi, sem frumsýnt verður um næstu helgi í Borgarleikhúsinu. Við ræðum við samstarfsmennina og hjónin, Val Frey og Ilmi Stefánsdóttur, sem er leikmyndahönnuður sýningarinnar, í þætti dagsins.
-Nostalgía er hugsanlega tilfinning okkar tíma, mögulega hefðum við átt að hætta að telja árin eftir 2020, tortryggni gagnvart líðandi stundu og Ikea-líkkistur? Þetta og miklu meira er efni sýningarinnar Stöðufundur sem opnaði um helgina í Gerðarsafni í Kópavogi þar sem veitt er innsýn í hugarheim og væntingar fimm skálda og fimm myndlistarmanna sem eru í fararbroddi sinnar kynslóðar. sem eiga það sameiginlegt að fjalla um samtímann sinn og stöðu ungs fólks í nútímasamfélagi. Við spyrjum sýningarstjóra Stöðufundar nánar út í þetta hér á eftir þau Kristínu Aðalsteinsdóttur og Þorvald Sigurbjörn Helgason.
-Ég trúi því samt ekki að Rússar muni rísa upp. Það eru svo margir sem eru undir áhrifum áróðurs. Þeir eru vanir að þola, það er ekkert svo slæmt, þetta eru bara ein óþægindin enn. Sem betur fer erum við enn með heiðan himinn yfir hausnum.- Svo segir Natasha, í sínum öðrum Víðsjárpistli. Pistill Natöshu í dag kallast Járntjaldið. Í honum fjallar Natasha um breytingarnar í Rússlandi frá því að stríðið hófst, ofstæki stjórnavalda, lokun frjálsra fjölmiðla, hækkun á sölu þunglyndsilyfja, verðbólgu, matarskort og fleira.
En við byrjum þáttinn í dag á því að líta inn á æfingu í heimahúsi. Herdís Anna Jónasdóttir, sópransöngkona, var tilnefnd til nokkurra verðlauna fyrir störf sín á Íslensku Tónlistarverðlaununum, meðal annars fyrir söng ársins. Hún heldur í tónleika á Ísafirði í dag, í Mývatnssveit 8.apríl, og í Hörpu 10.apríl, ásamt Simon Skigin píanóleikara og Grími Helgasyni klarinettuleikara.