Hákon Pálsson kvikmyndagerðamaður og ljósmyndari ætlaði að gera heimildamyndaseríu um Hótel Sögu þegar hann komst að því, nýfluttur til landsins eftir langa dvöl erlendis, að byggingin hafði verið mannlaus í marga mánuði. Eftir að hafa eitt þar heilum degi með myndavél komst Hákon að því að hann er mögulega lélegur heimildaljósmyndari. Eitthvað annað en skrásetningu sögunnar var að finna á myndunum, eitthvað óræðara. Og sú útkoma er nú til sýnis í Gallerí Port, undir nafninu
Hótel Saga: Óstaður í tíma. Við ræðum við Hákon í þætti dagsins.
Skáldsagan Miðnæturbókasafnið eftir breska rithöfundinn Matt Haig segir frá Noru Seed, ungri konu sem er komin að bjargbrúninni í lífinu. Hún hefur misst atvinnuna og köttinn sinn, slitnað hefur upp úr sambandi við hennar nánustu fjölskyldu og vini og Nora er á fremsta hlunn með að velja dauðann þegar til sögunnar kemur bókasafn sem snýr öllum hennar hugsunum á hvolf. Á safninu, sem er einhversstaðar milli tilvistarstiga, gefst Noru að lesa sér til um allar þær ótal útgáfur af sinni eigin ævi sem hefðu orðið. Miðnæturbókasafnið kom út í ágúst 2020 og var vel tekið. Hún náði fljótlega á lista margra af stærstu dagblaða heims yfir metsölubækur og hefur tilnefnd til hinna ýmsu bókmenntaverðlauna. Bókin kom út hér á landi fyrir aðeins örfáum vikum, í íslenskri þýðingu Valgerðar Bjarnadóttur og hún verður gestur Víðsjár hér á eftir.
Snorri Rafn Hallsson, pistlahöfundur í Vín, býður okkur aftur velkomin á skrifstofuna. Í viðtali um helgina sagði Helgi S Gunnarsson, forstjóri fasteignafélagsins Regins, að þörfin fyrir skrifstofuhúsnæði hafi ekkert minnkað eftir faraldurinn, fólk muni ekki halda áfram að vinna heima í stórum stíl. En átti heimavinna ekki að vera framtíðin? Hvers vegna breyttist ekki neitt? spyr Snorri og segir okkur frá bókinni Out of Office - the big problems and bigger promise of working from home, eftir Anne Helen Peterson og Charlie Warzel.
En við hefjum þáttinn í dag á því að fá til okkar ungan einleikara sem er með tónleika í Salnum í kvöld. Ernu Völu Arnardóttur.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Jóhannes Ólafsson.