Í Víðsjá í dag verður meðal annars fjallað um fræðimanninn, skáldið og þýðandann Hermann Pálsson en á morgun verða hundrað ár liðin frá fæðingu hans. Af því tilefni verður haldið málþing í Veröld - húsi Vigdísar - helgað Hermanni og mikilvægu framlagi hans til norrænna fræða. Hermann kenndi alla sína starfsævi við Edinborgarháskóla og óhætt að segja að fáir af hans kynslóð hafi haft jafn víðtæk áhrif á norræn fræði og hann gerði um sína daga. Rætt verður við Gísla Sigurðsson, sérfræðing á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en hann er einn þeirra mörgu fræðimanna sem fjalla um Hermann og verk hans í Veröld á morgun. Einnig verður í Víðsjá í dag fjallað um nýja skýrslu nefndar um stofnun þjóðaróperu sem mennta- og menningarmálaráðuneyti birti fyrir síðustu helgi. Ólöf Gerður Sigfúsdóttir leggur í sjónlistapistli dagsins leið sína í Hvelfinguna, sýningarrými Norræna hússins, til að sjá sýninguna ?Í síkvikri mótun: vitund og náttúra?. Sýningin er framlag Listaháskóla Íslands til nýafstaðinnar ráðstefnu Háskóla norðurslóða, eða University of the Arctic, þar sem rætt var um loftslagsmál, grænar lausnir, vistkerfi sjávar og málefni íbúa á norðurslóðum. Og tónlistarhornið Heyrandi nær verður á sínum stað í Víðsjá. Í dag ætlar Arnljótur Sigurðsson að heiðra minningu sikileyska tónlistarmeistarans Franco Battiato, sem féll frá í síðustu viku eftir fjölskrúðugan feril sem spannaði ríflega hálfa öld.