Í dag kemur út ný þýðing hjá Tunglinu forlagi sem heitir 30sti júní, 30sti júní eftir Richard Brautigan. Þetta er eins konar ferðasaga um Japan, þar sem tungumálaerfiðleikar og framandi menning framkalla einsemd og undrun. Bókin kom út árið 1978 og var síðasta ljóðabók Brautigans. Þórður Sævar Jónsson þýddi bókina og hann kemur og segir frá bókinni.
Flökkusagan segir að hvar sem stungið er niður skóflu í Hljómskálagarðinum megi finna rusl vegna þess að lengi vel var í garðinum einn helsti ruslahaugur borgarinnar. Í dag er sorpið sem þar er grafið orðið afar sérstakt rusl sem mætti jafnvel skilgreina sem fornminjar. Árið 2020 gróf Ágústa Edwald Maxwell, fornleifafræðingur, lítin skurð í garðinum og skoðaði þessar minjar. Víðsjá tekur hana tali í dag um ruslið í Hljómskálagarðinum.
Sumartónleikahátíðin í Skálholti hefst í kvöld og stendur til 11. júlí. Í Víðsjá í dag verður rætt við Ásbjörgu Jónsdóttur, annan tveggja listrænna stjórnenda hátíðarinnar, og Eygló Höskuldsdóttur tónskáld sem ásamt Hauki Tómassyni er annað tveggja staðartónskálda í Skálholti í ár.
Og Gauti Kristmannsson verður á sínum stað með bókmenntagagnrýni í Víðsjá í dag. Hann las Ævisögu Alice B. Toklas eftir Gertrude Stein sem nýlega kom út í þýðingu Tinna Bjarkar Ómarsdóttur undir merkjum sígildra samtímaverka hjá Unu útgáfuhúsi.
Umsjón með Víðsjá í dag: Tómas Ævar Ólafsson og Jóhannes Ólafsson