Víðsjá heimsækir Gerðarsafn í Kópavogi í þætti dagsins þar sem myndlistartvíeykið Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson sýna verk sín þessa dagana. Þau Bryndís rýna í samspil manns og náttúru, ekki síst á Norðurslóðum en verk þeirra verður hægt að skoða bæði í Gerðarsafni og í Listsafninu á Akureyri frá og með 25. september.
Margrét Bjarnadóttir, listamaður, kemur í heimsókn í Víðsjá en nú á dögunum birti hún greinina Ein mínúta í lífinu í greinasafninu Erindi; Póetík í Reykjavík sem kom út hjá Benedikt bókaútgáfu. Þar rekur hún nokkuð óhefðbundinn ritferil sem hverfist um dagbókaskrif, anagröm og fundin augnablik.
Sigurlín Bjarney fjallar um grát og tár í pistlum sínum um þessar mundir og núna beinir hún sjónum að tilfinningatárum og ólíkum gráti kynjanna.
Víðsjá minnist einnig Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, rithöfunds, sem nú er fallinn frá, en hún var margoft gestur hér í þættinum á árum áður. Í þætti dagsins grípum við niður í gamla upptöku af spjalli Álfrúnar og Eiríks Guðmundssonar.
Umsjón: Tómas Ævar Ólafsson og Guðni Tómasson