Í Víðsjá í dag verður meðal annars fjallað um bandaríska ljóðskáldið Louise Glück en tilkynnt var í Stokkhólmi í morgun að hún hlyti Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 2020.
Halla Harðardóttir heldur áfram að feta krókaleiðir listasögunnar, að þessu sinni rifjar hún upp gleymdar gyðjur súrrealismans, og lítur inn á sýningu sem nú stendur yfir í Louisiana safninu við Kaupmannahöfn. Á sýningunni Fantastic Women má sjá verk eftir 34 listakonur sem kenndar hafa verið við súrrealisma en sem margar hverjar hafa fallið í gleymskunnar dá.
Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi Víðsjár fjallar í dag um ljóðabókina Innfirði eftir finnska verðlaunahöfundinn Taipio Koivukari sem fyrir löngu er orðinn landsþekktur fyrir skáldsögur sínar sem komið hafa út í þýðingum Sigurðar Karlssonar.
Ennfremur verður hugað að myndlist í opinberu rými að gefnu tilefni og rætt við Ólöfu K. Sigurðardóttur, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur og Hlyn Helgason, varaformann Sambands íslenskra myndlistarmanna um þau mál.