Tvær sólir í heimi nördamenningar röðuðust upp um helgina þegar Alþjóðlegi Stjörnustríðsdagurinn og ókeypis myndasögudagurinn lentu á sömu dagsetningunni, 4. maí. Í ofanálag höfðu þær sorgarfréttir borist úr Stjörnustríðsheiminum að einn úr upprunalegu leikarateyminu, Peter Mayhew, hefði fallið frá 74 ára gamall. Það var við því að búast að mikið yrði um að vera í verslunum Nexus og sú var raunin, Lestin kom þar við og hlustendur heyra meira af þeirri heimsókn í þætti dagsins.
Á föstudag kom út nýja plata með bandarísku hljómsveitinni Vampire Weekend, sem stofnuð var í New york árið 2006. Platan nefnist Father of the Bride, um er að ræða fjórðu plötu sveitarinnar, og hefur hún hlotið lofsamlega dóma. Breska kvikmyndin Babylon, eftir ítalska leikstjórann Franco Rosso er oft kölluð besta reggí-mynd allra tíma en myndin, sem frumsýnd var árið 1980, fjallar á félagslega raunsæjan hátt um líf innflytjenda frá Jamæka í Lundúnum á Thatcher-tímabilinu og tónlistarkúltúrinn sem þessir innflytjendur fluttu með sér. Myndin er nú loksins sýnd í bíó í Bandaríkjunum, tæpum 40 árum eftir að hún kom fyrst út en Babylon var á sínum tíma afar umdeild. Þórður Ingi Jónsson segir frá í þættinum í dag. Við hugum líka að tónleikum sem fram fara í New York í kvöld, mjög athyglisverðum, þetta er upphaf tónleikaraðar sem stendur yfir næstu fjórar vikurnar eða svo. Fara fram í splúnkunýrri menningarmiðstöð á Manhattan, miðstöð sem opnuð var fyrir mánuði eða svo.
Og gamanþættir um líf og störf múslima eru ekki á hverju strái en nýju, bandarísku sjónvarpsþættirnir Ramy benda til að hér sé um auðugan garð að gresja. Áslaug Torfadóttir fjallar um þættina í Lestinni í dag.