Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian West hefur látið til sín taka í fangelsismálum á síðustu misserum. Mörgum þykir það skjóta skökku við, að kona sem ýtir undir neysluhyggju og útlitsdýrkun beiti sér fyrir einn undirokaðasta hóp Bandaríkjanna.
Hún hefur þó átt beina aðild að frelsi 17 fyrrum fanga og fundaði í vikunni með fanga á dauðadeild San Quentin fangelsisins. Ingibjörg Friðriksdóttir, tónlistarmaður, starfaði í fangelsinu um tíma. Hún ræðir Kim og fangelsismál og réttarkerfi Bandaríkjanna í lestinni í dag.
Marta Sigríður Pétursdóttir tekur fyrir tvær kvikmyndir. Önnur er ný íslensk kvikmynd um par sem leiðist út í sölu fíkniefna í íslenskum undirheimum en hin segir frá því þegar svartur löglreglumaður kom sér inn í Ku Klux Klan á áttunda áratugnum. Við heyrum af Eden og BlackkKlansman.
Útsendari Lestarinnar lagði land undir fót síðustu vikur, ferðaðist til London og Barcelona og fór á tónlistarhátíðir í báðum borgum. Davíð Roach Gunnarsson segir okkur frá All Points East sem haldin var í Victoria Park í London þar sem fyrir augu bar hljómsveitir og listamenn eins og Chemical Brothers, Roisin Murphy, The Strokes og Danny Brown.