Síðastliðinn laugardag, 4. janúar, voru 60 ár liðin síðan franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Albert Camus fórst í bílslysi, skammt frá París. Camus var 47 ára gamall, þremur árum fyrr hafði hann fengið Nóbelsverðlaun í bókmenntum, aðeins 43ja ára gamall. Camus var einhver áhrifamesti rithöfundur Frakka á öldinni sem leið, þekktur fyrir skáldsögur á borð við Útlendinginn, Pláguna og Fallið, auk þess sem hann skrifaði margar áhrifamiklar ritgerðir. Rætt verður við Guðmund Brynjólfsson, rithöfund og djákna, um Albert Camus af þessu tilefni í Víðsjá í dag. Snæbjörn Brynjarsson leiklistarrýnir þáttarins fjallar í dag um leikritið Meistarann og Margarítu sem Þjóðleikhúsið frumsýndi um jól, en verkið, sem er í leikstjórn Hilmars Jónssonar, byggir á samnefndri skáldsögu eftir rússneska rithöfundinn Mikhail Búlgakov. Bók vikunnar að þessu sinni er skáldsagan Villueyjar eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur. Rætt verður við Ragnhildi í Víðsjá í dag og hún les brot úr verkinu. Einnig verður í þætti dagsins fjallað að gefnu tilefni um kraftinn í útgáfu á sígildri tónlist á heimsvísu.
Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson.