Í Víðsjá í dag verður meðal annars komið við í Þjóðarbókhlöðunni og skoðuð sýning sem opnuð var á fimmtudag en þar má nú skoða útgáfur listahópsins Medúsu sem nú eru orðnar hluti af bókverkasafni Landsbókasafnsins. Súrrealistahópurinn Medúsa var stofnaður af nokkrum nemendum í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti í árslok 1979, var starfandi í sjö ár og gaf á þeim tíma út ljóðabækur, hljóðsnældur, smásögur, póstkort, veggspjöld og bæklinga svo nokkuð sé nefnt. Auk þess sem hópurinn stóð fyrir ljóðaupplestrum, tónleikum og gjörningum og rak galleríið Skruggubúð við Suðurgötu í tvö ár. Ólafur J. Engilbertsson, einn af meðlimum Medúsu og sýningarstjóri, verður tekinn tali í Víðsjá í dag. Einnig verður hugað að silfurbergi og myndlist sem er innblásin af því, en myndlistarkonurnar Sirra Sigrún Sigurðardóttir og Selma Hreggviðsdóttir hafa verið með hugann við silfurberg að undanförnu og sýna nú verk sín á sýningunni Ljósvaki /Æther 1.0.1 í Berg Contemporary gallerí við Klapparstíg. Björn Þór Vilhjálmsson bókmenntagagnrýnandi rýnir í dag í bókina Stjörnur og stórveldi á leiksviðum Reykjavíkur 1925-1965 eftir Jón Viðar Jónsson, en Jón hlaut á dögunum Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þetta verk í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Í bókinni beitir Jón nýstárlegum aðferðum til að varpa ljósi á merkan kafla í íslenskri leiklistarsögu, segir sögu allra helstu leikara tímabilsins, greinir frá sigrum þeirra og ósigrum jafnframt því sem hann gerir valdabaráttunni að tjaldabaki ítarleg skil. Og Björn Þorsteinsson prófessor í heimspeki glímir á miðvikudögum í Víðsjá í febrúar, í upphafi nýs áratugar, við spurninguna: Hvað nú? Björn fjallar í pistlum sínum um heimsendi eða enda veraldarinnar, og spyr: Hvað eigum við að gera á meðan við bíðum?
Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson