Hlustendur heyra af verkefninu Ljóð fyrir þjóð sem Þjóðleikhúsið er að fara af stað með þessa dagana, en þar geta landsmenn valið sér ljóð sem að fremstu leikarar þjóðarinnar flytja fyrir þá, aðeins einn áhorfanda í einu á hverri sýningu, á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri segir frá verkefninu í Víðsjá í dag, en ljóðin munu einnig hljóma í Víðsjá næstu vikurnar, á meðan að samgöngubann stendur yfir. Rýnt verður í þættinum í dag að gefnu tilefni í egypskar steintöflur og aðrar fornar heimilir um veirusmit sem fortíðin hefur skilið eftir. Einnig verður komið við í tómu leikhúsi í Garðabæ þar sem Senuþjófurinn hefur aðstöðu. Senuþjófurinn virðir samkomubann og boðar til rafrænna viðburða undir yfirskriftinni Leikhúsið og farsóttin en þar verður sótt í skrif eftir franska leikhúsmanninn Antonin Artaud, sem var eitt af stóru nöfnunum í leikhússögu 20. aldar, þekktastur fyrir kenningar sínar um Leikhús grimmdarinnar. Senuþjófurinn mun birta á netinu brot úr ritgerð Artauds um leikhúsið og farsóttina á mánudögum svo lengi sem samkomubann er í gildi. Trausti Ólafsson leikhúsfræðingur segir frá viðburðinum og hugmyndum Artauds um leikhúsið og farsóttina í Víðsjá í dag. Björn Þór Vilhjálmsson fjallar um Skynvilluspegillinn: Hugleiðingar um sjálfsblekkingu, nýlegt greinasafn eftir Jiu Tolentino, nýmiðla- og skjámenningarrýni bandaríska vikublaðsins New Yorker. Og bók vikunnar á Rás 1 að þessu sinni er Selta eftir Sölva Björn Sigurðsson, söguleg skáldsaga sem fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2019. Bókin hefst á því að árið 1839 finnur landlæknir ungan dreng sem hefur rekið á land við Hjörleifshöfða og þar með bankar fortíðin upp á. Við tekur viðburðaríkt ferðalag, bæði aftur í tímann, til Evrópu í kringum aldamótin 1800, og um þvert og endilangt Ísland. Hlustendur heyra í Sölva í þættinum í dag.
Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson